Innlent

Geir fer með málið til Mannréttindadómstólsins tapi hann

Boði Logason skrifar
Geir H. Haarde ætlar að fara með málið til Mannréttindadómstóls Evrópu ef hann tapar því. Mynd/GVA
Geir H. Haarde ætlar að fara með málið til Mannréttindadómstóls Evrópu ef hann tapar því. Mynd/GVA
Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, sagði í Kastljósi í kvöld að ef hann tapi landsdómsmálinu, á einhverjum þeim forsendum sem hann væri ekki sáttur við, myndi hann fara með það fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Hann útilokaði ekki að hann myndi kalla til erlendra aðila fyrir landsdóm til viðbótar við þá sextíu sem saksóknari hefur kallað til vitnis.

Hann sagðist hafa orðið hissa hvernig sumir þingmenn Samfylkingar og Framsóknar vörðu atkvæði sínu á Alþingi. „Ég skil það ekki enn þann dag í dag." Spurður hvort hann ætli að fara með málið lengra ef hann verður sýknaður sagði Geir að það væri ómögulegt að segja. „Það gæti komið til greina," sagði hann og tók fram að hann hefði hagað lífi sínu öðruvísi frá því að málið hófst. Hann átti von á því að vera kallaður fyrir þingmannanefndina ásamt öðrum ráðherrum en það gerðist aldrei. „Hvað þýðir það? Ákæran var gefin út áður en málið var rannsakað."

Hann vildi ekki gefa upp hvort von væri á nýjum gögnum frá honum í málið. „Ég á heilmikið efni í mínum fórum frá þessum tíma," sagði Geir en saksóknari hefur boðað yfir sextíu manns í vitnaleiðslur. „Saksóknari kallar ekki í neina erlenda aðila sem koma nálægt þessu," sagði Geir og benti á að frásagnir þeirra sem hann var að eiga við á sínum tíma sem forsætisráðherra væru kannski ekki samhljóða því sem menn hafa sagt hér heima.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×