Fótbolti

Mótframbjóðandi Sepp Blatter flæktur í mútumál

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed bin Hammam og Jack Warner.
Mohamed bin Hammam og Jack Warner. Mynd/AP
FIFA hefur sett af stað rannsókn vegna ásakanna á hendur tveimur stjórnarmanna FIFA sem eiga að hafa brotið siðareglur FIFA á fundi hjá karabíska fótboltasambandinu. Fundurinn var haldinn í tengslum við komandi forsetakosningar FIFA.

Mohamed bin Hammam, mótframbjóðandi Sepp Blatter, forseta FIFA, skipulagði fundinn og er einn fjögurra sem eru grunaðir en þar á meðal eru einnig Jack Warner, varaforseti FIFA, og tveir stjórnarmenn í karabíska fótboltasambandinu.

Bin Hammam er að reyna að enda þrettán ára setu Sepp Blatter í forsetastól FIFA og er þetta mál mikið áfall fyrir framboð hans.

Þessi afdrifaríku fundir fóru fram 10. og 11. maí þar sem Mohamed bin Hammam var að reyna að vinna sér inn stuðning fyrir umræddar forsetakosningar.

Það er Chuck Blazer, meðlimur í framkvæmdanefnd FIFA, sem setur fram þessar ásakanir sem eru það alvarlegar að Jerome Valcke, aðalritari FIFA, ákvað að setja af stað rannsókn hjá Siðanefnd FIFA.

Mohamed bin Hammam er forseti asíska knattspyrnusambandsins og er að bjóða sig fram gegn Sepp Blatter í forsetakosningum FIFA sem fara fram 1. júní. Hann mun koma fyrir Siðanefnd FIFA 29. maí eða aðeins þremur dögum fyrir kosningarnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×