Innlent

Lífið á Kirkjubæjarklaustri að komast í eðlilegt horf

KMU skrifar
Stefán Karlsson ljósmyndari tók þessa mynd af hreinsunarstörfum á Kirkjubæjarklaustri.
Stefán Karlsson ljósmyndari tók þessa mynd af hreinsunarstörfum á Kirkjubæjarklaustri.
Leikskólinn á Kirkjubæjarklaustri var opnaður í morgun, en hann hafði verið lokaður alla vikuna vegna öskufalls. Þá er verið að þrífa grunnskólann og sundlaugina en óvíst er hvenær starfsemi hefst þar á ný. Íbúafundur verður haldin á Klaustri í kvöld um stöðu mála á öskusvæðunum.

Leikskólinn á Kirkjubæjarklaustri, Kæribær, var þrifinn að utan og innan í gær og í morgun voru menn tilbúnir að taka við börnum á ný. Í dag er verið að þrífa grunnskólann á Klaustri, Kirkjubæjarskóla, en sveitarstjórinn, Eygló Kristjánsdóttir, sagði nú fyrir hádegi að þótt menn vonuðust til að unnt yrði að hefja kennslu þar á morgun væri óvíst hvort það tækist. Kjartan Kjartansson skólastjóri segir hins vegar að þetta hafi átt að vera síðasti kennsludagurinn, samkvæmt skóladagatali, og því sé ólíklegt að börnin komi meira í skólann fyrr en í haust nema þá hugsanlega til skólaslita. Þetta sé hins vegar allt óljóst. Ennfremur er verið að þrífa íþróttahúsið og sundlaugina og sömuleiðis er óljóst hvenær unnt verður að leyfa fólki að synda á ný.

Fulltrúi frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands er á Klaustri í dag að taka við vatnssýnum til rannsóknar frá fyrirtækjum og heimilum og öðrum sem þess óska. Í kvöld verður haldinn íbúafundur í félagsheimilinu á Kirkjubæjarklaustri. Farið verður yfir þróun eldgossins í Grímsvötnum, afleiðingar þess og stöðuna. Fulltrúar frá þrettán stofnunum verða á staðnum til að svara fyrirspurnum frá íbúum, þar á meðal lögregla, jarðvísindamenn, heilbrigðisstarfsfólk, búnaðarráðunautar og fulltrúar Bjargráðasjóðs og Viðlagatryggingar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×