Íslenski boltinn

Ólafur: Ætla ekki að búa til einhverjar skýjaborgir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Þórðarson, þjálfari Fylkis, stýrði sínum mönnum inn í úrslitaleik Lengjubikars karla eftir 1-0 sigur á KR í undanúrslitaleik liðanna á Fylkis-gervigrasinu í gær.

„Þetta var skemmtilegur leikur með fullt af færum á báða bóga. Það vildi þannig til að við náðum að klára eitt þeirra sem er meiriháttar," sagði Ólafur Þórðarson í viðtali við Eirík Stefán Ásgeirsson eftir leikinn. Það var Ingimundur Níels Óskarsson sem skoraði sigurmarkið í byrjun seinni hálfleiks.

„Það var spilað um það hverjir ætluðu í þennan úrslitaleik og við vildum það aðeins meira heldur en KR-ingarnir í kvöld," sagði Ólafur.

„Breiddin í mínu liði hefur aukist mikið frá því í fyrra. Bæði hafa ungu strákarnir orðið reynslunni ríkari eftir árið í fyrra og svo erum við líka búnir að fá Baldur Bett og Gylfa Einarsson. Þá höfum við líka fengið Bjarna í markið og þá er hörku samkeppni um þá stöðu því við vorum með Fjalar fyrir," sagði Ólafur.

„Það hefur hópnum meira aðhald að breiddin er að aukast og maður er sáttur við það. Auðvitað vill maður alltaf hafa meiri breidd en við verðum bara að vera sáttir með það sem við höfum og ætlum að spila út frá því," sagði Ólafur.

„Ég held að við eigum eftir að geta gert betur en í fyrra en svo á bara framhaldið eftir að koma í ljós. Ég ætla ekki að fara búa til einhverjar skýjaborgir en með vinnusemi, dugnaði og samvinnu þessara drengja þá geta þeir náð langt," sagði Ólafur en það má sjá allt viðtalið með því að smella hér fyrir ofan.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×