Enski boltinn

Thorn fær langtímasamning hjá Coventry

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson í leik með Coventry.
Aron Einar Gunnarsson í leik með Coventry. Nordic Photos / Getty Images
Knattspyrnustjórinn Andy Thorn hefur fengið langtímasamning hjá enska B-deildarfélaginu Coventry, sem landsliðsmaðurinn Aron Einar Gunnarsson leikur með.

Thorn var falið að stýra liðinu tímabundið eftir að félagið rak Aidy Boothroyd úr starfi í síðasta mánuði. Síðan þá hefur liðinu gengið betur og komið sér af fallsvæðinu.

Thorn lék á sínum tíma í efstu deild á Englandi með Crystal Palace, Newcastle og Wimbledon. Þetta er í fyrsta sinn sem hann tekur að sér starf knattspyrnustjóra en hann kom á sínum tíma til Coventry sem njósnari.

„Ég naut þess að sinna þessu starfi og hlakka til að takast á við nýjar áskoranir og fá að móta liðið sjálfur til lengri tíma,“ sagði Thorn við enska fjölmiðla.

Aron Einar hefur alla sína tíð verið fastamaður í liði Coventry og það breyttist ekki eftir að Thorn tók við. Coventry er sem stendur í sautjánda sæti deildarinnar en aðeins tvær umferðir eru eftir af deildarkeppninni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×