Enski boltinn

Wenger ánægður með Almunia

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, hefur hrósað markverðinum Manuel Almunia fyrir fagmannlegt viðhorf og auðmýkt.

Almunia hefur misst sæti sitt í byrjunarliði Arsenal á leiktíðinni og var um tíma þriðji í goggunarröðinni, á eftir þeim Lukasz Fabianski og Wojciech Szczesny.

Hann lét það þó ekki hafa nein áhrif á sig og þolinmæðin borgaði sig þegar hann kom inn á sem varamaður í leik Arsenal gegn Barcelona í Meistaradeild Evrópu fyrr í vikunni vegna meiðsla Szczesny.

Þó svo að Arsenal hafi tapað leiknum, 3-1, stóð Almunia sig vel og kom í veg fyrir enn stærra tap.

„Hann hefur hagað sér mjög fagmannlega og af mikilli auðmýkt,“ sagði Wenger í samtali við enska fjölmiðla í dag en Arsenal mætir Manchester United í ensku bikarkeppninni á morgun. Til greina kemur að Almunia verði í byrjunarliði Arsenal þá. „Hann hefur staðið sig mjög vel, sérstaklega í leiknum gegn Barcelona.“

„Þegar Jens Lehmann datt úr liðinu á sínum tíma og Almunia kom inn í hans stað mætti Lehmann á æfingu næsta dag og lagði meira á sig en nokkru sinni fer. Um það snýst starf atvinnumannsins.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×