Enski boltinn

Suarez spilar tvo leiki á næsta mánuði

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Luis Suarez í leiknum um helgina.
Luis Suarez í leiknum um helgina. Nordic Photos / Getty Images
Luis Suarez, leikmaður Liverpool, segir að stuðningsmenn liðsins þurfi að bíða eitthvað lengur þar til að hann nær að sýna sínar allra bestu hliðar á vellinum.

Suarez átti þó stórleik þegar að Liverpool vann 3-1 sigur á Manchester United um helgina. Dirk Kuyt skoraði öll mörk Liverpool en Suarez átti þátt í þeim öllum.

Hann var keyptur frá Ajax í Hollandi í janúar síðastliðnum og má ekki spila með Liverpool í Evrópudeild UEFA á þessu tímabili. Liðið er einnig úr leik í ensku bikarkeppninni sem þýðir að Suarez getur aðeins spilað með Liverpool í ensku úrvalsdeildinni.

Það þýðir að á næsta mánuði mun Suarez aðeins spila með Liverpool í tveimur leikjum, í mesta lagi. Liverpool á næst leik í deildinni þann 20. mars gegn Sunderland á útivelli og svo gegn West Brom í byrjun apríl eftir það.

„Það er mjög erfitt að spila eina vikuna og bíða svo í tvær vikur eftir næsta leik," sagði Suarez í viðtali við enska fjölmiðla.

„Það er erfitt fyrir mig að koma mér í almennilegt form þannig. Það mun því taka einhvern tíma þar til að stuðningsmennirnir sjá mig þegar ég er upp á mitt besta. En ég er samt að leggja mikið á mig á hverjum degi."

Suarez spilaði lítið sem ekkert í desember og janúar í Hollandi þar sem hann var dæmdur í sjö leikja bann fyrir að bíta andstæðing í öxlina í leik.

„En það var frábært fyrir nýjan leikmann eins og mig að finna fyrir þeim stuðningi sem ég fékk á sunnudaginn. Það var frábært."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×