Fótbolti

Valsmaður fékk rautt í sigri Færeyinga á Eistum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pol Johannes Justinussen í leik á móti FH.
Pol Johannes Justinussen í leik á móti FH. Mynd/Anton
Valsmaðurinn Pol Johannes Justinussen fékk að líta rauða spjaldið á lokamínútunum þegar færeyska landsliðið vann 2-0 sigur á Eistum í undankeppni EM 2012 í kvöld. Þetta var fyrsti sigur Færeyinga í undankeppninni en þeir hafa nú náð í þremur stigum meira en íslenska landsliðið hefur gert í sínum riðli.

Bæði mörk Færeyinga komu í kringum hálfleikinn. Fródi Benjaminsen, fyrrum Framari, kom Færeyingum í 1-0 á 43. mínútu og Arnbjörn Hansen bætti við öðru marki á 47. mínútu.

Pol Johannes Justinussen og Jonas Tór Næs voru báðir í byrjunarliði Færeyja en þeir leika saman með Valsliðinu. Pol fékk tvö gul spjöld, það fyrra á 75. mínútu og það síðara á 89. mínútu. Eistar voru manni færri frá 57. mínútu.

Þriðji Valsmaðurinn í færeyska landsliðinu, Christian Mouritsen, kom inn á sem varamaður á 85. mínútu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×