Enski boltinn

Nasri samdi við Man City til fjögurra ára

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nasri er mættur til Manchester.
Nasri er mættur til Manchester. Nordic Photos/AFP
Samir Nasri er genginn í raðir Manchester City. Franski miðjumaðurinn skrifaði undir fjögurra ára samning við City. Kaupverðið er talið vera 23 milljónir punda eða sem nemur 4.3 milljörðum íslenskra króna.

Sky Spors fréttastofan greinir frá þessu í dag.

Nasri sást gefa eiginhandaráritanir og stilla sér upp á myndum með stuðningsmönnum City liðsins fyrir utan leikvang félagsins fyrr í dag. Nasri mun spila í treyju númer 19 hjá City.

Fróðlegt verður að sjá hvernig Roberto Mancini, knattspyrnustjóri City, kemur Nasri fyrir í liði City en leikmannahópur félagsins þykir afar sterkur. Fjölmargir sterkir leikmenn hafa þurft að verma varamannabekkinn í fyrstu leikjum tímabilsins.

Leikmaðurinn er sá fjórði sem gengur til liðs við City í sumar. Sergio Aguero, Gael Clichy og Svartfellingurinn Stefan Savic eru allir nýgengnir í raðir félagsins.

Nasri gæti leikið sinn fyrsta leik fyrir City á White Hart Lane á sunnudag gegn Tottenham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×