Innlent

Oddvitinn endurkjörinn

Flatey á Breiðafirði. Kosningarnar í maí síðastliðnum voru dæmdar ógildar.
Flatey á Breiðafirði. Kosningarnar í maí síðastliðnum voru dæmdar ógildar. Mynd/Anton Brink
Gústaf Jökull Ólafsson var endurkjörinn oddviti hreppsnefndar Reykhólahrepps til eins árs á fyrsta fundi nefndarinnar á mánudag. Andrea Björnsdóttir var kosin varaoddviti til sama tíma. Greint er frá þessu á vef Reykhólahrepps.

Sveitarstjórnarkosningarnar 29. maí voru úrskurðaðar ógildar í Reykhólahreppi þar sem

sveitarstjórnin sinnti því ekki að fræða íbúa Breiðafjarðareyja um framboð og framkvæmd kosninganna. Kosið var að nýju 24. júlí.

Af fimm hreppsnefndarmönnum gáfu aðeins tveir kost á sér við nýliðnar kosningar, þeir Gústaf Jökull og Sveinn Ragnarsson, og voru þeir báðir endurkjörnir. Nýir hreppsnefndarmenn eru Andrea Björnsdóttir, Eiríkur Kristjánsson og Ásta Sjöfn Kristjánsdóttir.

Þá kemur fram á vef Reykhólahrepps að auglýst verði eftir sveitarstjóra en síðasti vinnudagur Óskars Steingrímssonar sem sveitarstjóra var á föstudag. Einnig verður auglýst eftir skrifstofustjóra hreppsins en Eygló Kristjánsdóttir hefur látið af því starfi vegna þess að hún hefur verið ráðin sveitarstjóri í Skaftárhreppi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×