Enski boltinn

Manchester City býður Zlatan ofurlaun - 93 milljónir á viku

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic í leik með Barcelona.
Zlatan Ibrahimovic í leik með Barcelona. Mynd/AFP
Enska slúðurblaðið The Sun sagði frá því í morgun að Manchester City hafi boðið sænska landsliðsframherjanum Zlatan Ibrahimovic laun sem myndu gera hann að lang-launahæsta knattspyrnumanni heims.

Manchester City hefur samkvæmt heimildum blaðsins boðið Zlatan Ibrahimovic fjögurra ára samning sem ætti að gefa Svíanum 96 milljóir punda í vasann sem gera 17,9 milljarða íslenskra króna.

Þetta þýðir að Zlatan væri með 93 milljónir íslenskra króna í vikulaun og að kunnir kappar eins og Lionel Messi, Cristiano Ronaldo og Kaka væru að fá smálaun í samanburði.

Zlatan Ibrahimovic hefur ekki fundið sig nægilega vel hjá Barcelona þrátt fyrir góða byrjun og Roberto Mancini er mjög áhugasamur að vinn aftur með Svíanum en þeir unnu vel saman á sínum tíma hjá Internazionale Milan. Það þótti alltaf líklegt að Zlatan myndi yfirgefa Barcelona fyrst að félagið keypti David Villa frá Valencia.

Koma Zlatan Ibrahimovic hefur alltaf þýtt það að meistaratitill komi í hús. Hann hefur orðið meistari með sínu liði sjö tímabil í röð. Hann vann titilinn með Ajax 2004, með Juventus 2005 og 2006, með Internazionale 2007, 2008 og 2009 og loks með Barcelona á þessu tímabili. Titlarnir með Juve voru reyndar seinna dæmdir af félaginu vegna stóra mútumálsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×