Innlent

Landsdómur úrskurðar um aðgang saksóknara að gögnum

Landsdómur eins hann leggur sig þarf að taka afstöðu til kröfu um afhendingu gagna en Þjóðskjalasafnið hefur synjað saksóknara Alþingis um aðgang að skýrslutökum og tölvupóstum Geirs H. Haarde.

Í húsakynnum Þjóðskjalasafns Íslands eru öll gögn rannsóknarnefndar Alþingis geymd. Skýrslutökur, tölvubréf og annað en safnið hefur neitað Sigríði J. Friðjónsdóttur, saksóknara Alþingis, um aðgang að þessum gögnum.

Allt á hörðum diskum

Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskjalasafninu eru öll gögn nefndarinnar geymd þarna, rafræn og skrifleg skjöl. Öll rafræn skjöl eru á nokkrum stórum hörðum diskum. Stöð 2 óskaði eftir því að fá að mynda hirslurnar sjálfar, en ekki var orðið við þeirri ósk.

Sigríður J. Friðjónsdóttir, saksóknari Alþingis, sem sækir mál á hendur Geir H. Haarde fyrir landsdómi vegna meintrar vanrækslu var synjað um tölvupósta Geirs og skýrslutökur yfir honum með vísan til stjórnarskrárákvæðis um einkalífsvernd. Þetta tefur fyrir saksóknaranum því nú þarf að kalla saman landsdóm til að úrskurða um aðgang að gögnunum.

Alþingi kemur ekki saman fyrr en 17. janúar

Fyrir Alþingi er nú frumvarp til breytinga á lögum um landsdóm um að ef kveða þurfi upp úrskurði um rannsóknaraðgerðir eða atriði sem tengjast rekstri máls geti forseti dómsins kvatt tvo aðra lögfræðinga úr hópi dómara til að standa að því með sér. Þetta er ákveðið réttafarshagræði því að óbreyttum lögum hefði þurft að kalla landsdóm í heild sinni, alls fimmtán manns, til að úrskurða um t.d kröfu um afhendingu gagna, en Alþingi kemur ekki saman fyrr en 17. janúar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×