Innlent

Áhrif olíulekans vanmetin

Birtingarmyndir olíuslyssins eru hræðilegar. Til langs tíma gæti skaðinn þó verið enn meiri.nordicphotos/afp
Birtingarmyndir olíuslyssins eru hræðilegar. Til langs tíma gæti skaðinn þó verið enn meiri.nordicphotos/afp
Áhrif olíulekans í Mexíkóflóa gætu haft mun skaðlegri áhrif fyrir vistkerfið á svæðinu en hingað til hefur verið talið. Hópur vísindamanna frá Imperial College í London hefur sýnt fram á að olía veldur arseník-eitrun sem til lengri tíma getur komist inn í fæðukeðjuna og valdið skaða á gróðri og dýrum.

Arseník er sterkt eitur sem finnst í steindum og fyrirfinnst í olíu. Arseník hefur áhrif á ljóstillífun í sjávargróðri og eykur líkur á genabreytingum sem valda fæðingargöllum og hegðunarbreytingum hjá sjávardýrum, eins og kemur fram í grein í nýjasta tölublaði vísindatímaritsins Science Daily. Þá drepur eitrið fugla sem éta arseník-eitraða fæðu. Því ofar sem kemur í fæðukeðjuna því sterkari verða eituráhrifin.

Mark Sephton, prófessor í sjávarlíffræði við Imperial College, segir í viðtali við Science Daily að rannsóknin sýni þá ógn sem olíumengun getur haft til framtíðar. „Rannsókn okkar er tímabær áminning um að olíumengun er eins og tímasprengja sem ógnar samsetningu lífríkisins í hafinu.“

Olíuborpallurinn Deepwater Horizon eyðilagðist og sökk í apríl síðastliðnum. Allt frá þeim tíma hefur gríðarlegt magn olíu lekið út í hafið. Misvísandi fréttir eru af því magni sem hefur lekið í sjóinn en samkvæmt útreikningum bandaríska tímaritsins Newsweek eru það um fjórar milljónir tunna. - shá



Fleiri fréttir

Sjá meira


×