Innlent

Uppvísir að stórtæku svindli

Gagnrýni Evrópusambandslanda á veiðar Íslendinga eru háværar. Hæst láta Skotar sem nú eru uppvísir að stórfelldri rányrkju. fréttablaðið/Óskar
Gagnrýni Evrópusambandslanda á veiðar Íslendinga eru háværar. Hæst láta Skotar sem nú eru uppvísir að stórfelldri rányrkju. fréttablaðið/Óskar
Skipstjórar sex skoskra skipa hafa viður-kennt fyrir hæstarétti í Glasgow að hafa veitt og landað ólöglega tugum þúsunda tonna af makríl og síld að verðmæti 2,7 milljarðar króna. Einn skipstjóranna er varaformaður Samtaka skoskra uppsjávarveiðimanna (SPFA). Eins og kunnugt er hafa samtökin haft sig mjög í frammi í gagnrýni á makrílveiðar Íslendinga að undan-förnu. Frá þessu greina skoskir fjölmiðlar og þeirra á meðal The Scotsman.

„Það er orðið þreytandi að lesa hverja fréttina á fætur annarri um ásakanir Skota á hendur okkur fyrir óábyrgar veiðar á makríl,” segir Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ. „Þessir sömu menn hafa orðið uppvísir að því að veiða ólöglega og landa tugum þúsunda tonna af makríl og síld.“ Í frétt á heimasíðu LÍÚ er það rifjað upp að Skotar ákváðu að sniðganga ráðstefnu Norrænu ráðherranefndarinnar í Færeyjum, þar sem veiðar á síld og makríl eru til umfjöllunar.

Ólöglegu landanirnar sem um ræðir áttu sér stað á Hjaltlandseyjum á árunum 2002-2005. Alls reyndist um 200 brotatilvik að ræða. Rannsókn málsins var að sögn yfirvalda og fjölmiðla mjög tímafrek enda brotin „þaulhugsað samvinnuverkefni útgerðarmanna og vinnslu-aðila í landi“. - shá



Fleiri fréttir

Sjá meira


×