Innlent

Sér aukinn vilja til þess að samningaviðræður klárist

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Össur Skarphéðinsson er sannfærður um að Ísland endi í ESB. Mynd/ GVA.
Össur Skarphéðinsson er sannfærður um að Ísland endi í ESB. Mynd/ GVA.
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra segist finna aukinn stuðning fyrir því að Ísland ljúki samningarviðræðum við Evrópusambandið og að Íslendingar fái að greiða atkvæði um inngöngu í sambandið.

„Ég heyri miklu meira þessa dagana að það sé sjálfsagt að halda þessari vegferð áfram, koma heim með samning, þannig að þjóðin fái að sjá hvað í honum felst og fái sjálf að kjósa í þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort við viljum gerast aðilar að Evrópufjölskyldunni eða standa utar. Sjálfur er ég ekki í vafa um það hver niðurstaðan verði - ég held að íslenska þjóðin muni sjá að henni mun farnast betur þar fyrir innan," sagði Össur í samtali við Reykjavík síðdegis á Bylgjunni.

Tillaga frá stjórnarandstöðunni um að hætta við aðildarviðræður liggur fyrir þinginu. Össur segir að viðræðuferlið sé rétt að hefjast. Ekkert liggi fyrir hvað sé í boði og það muni ekki koma í ljós nærrum því strax. Þann 15. nóvember muni hefjast ákveðið ferli þar sem löggjöf Evrópusambandsins og íslensk löggjöf er borin saman. Hinar eiginlegu samningaviðræður hefjist ekki fyrr en næsta sumar. Byrjað verði á auðveldum köflum en að mati Össurar gætu samningaviðræður um landbúnaðarviðræður hafist fyrir næsta sumar og samningaviðræður um sjávarútvegin gætu ef til vill hafist um haustið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×