Enski boltinn

Bebe var falur fyrir 150 þúsund pund í upphafi ársins

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alex Ferguson, stjóri Manchester United.
Alex Ferguson, stjóri Manchester United. Nordic Photos / Getty Images

Enska blaðið Daily Mail segir í dag að portúgalski leikmaðurinn Bebe hafi verið falur fyrir litla upphæð í byrjun ársins.

Það kom mörgum á óvart þegar að Manchester United, eitt stærsta félag heims, keypti Bebe fyrri 7,4 milljónir punda. Alex Ferguson, stjóri liðsins, viðurkenndi svo að hafa aldrei séð hann spila.

Þá var Bebe nýgenginn til liðs við úrvalsdeildarliðið Guimaraes sem fékk hann frítt frá C-deildarliðinu Estrela.

En fyrrum þjálfari Estrela, Jorge Paxaio, segir í samtali við blaðið að félagið hafi reynt að selja Bebe í janúar síðastliðnum.

„Við höfðum samband við félög víða um Evrópu og líka í Englandi og reyndum að selja Bebe. Hann var falur fyrir 150 þúsund pund," er haft eftir Paxaio.

Estrela átti í miklum fjárhagsvandræðum og var að berjast við gjaldþrot. Bebe hafði þá rúmar tvær milljónir í árstekjur hjá félaginu en hann þénar það nú á einni viku hjá Manchester United.

Bebe ólst upp og bjó á hæli fyrir heimilislausa rétt utan Lissabon þar til í sumar er hann gekk í raðir Guimaraes.

Paxaio hrósaði Bebe og sagði hann góðan knattspyrnumann. „Manchester United hefur keypt frábæran leikmann."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×