Enski boltinn

Tvíburabróðir Martin Olsson vill líka komast að í ensku úrvalsdeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Olsson spilar með Blackburn.
Martin Olsson spilar með Blackburn. Mynd/AFP
Martin Olsson hjá Blackburn í ensku úrvalsdeildinni á tvíburabróður sem hefur verið að gera góða hluti með Halmstad í sænsku deildinni. Nú vill tvíburabróðir hans Marcus Olsson komast að í ensku deildinni en þeir eru 22 ára gamlir.

Sam Allardyce, stjóri Blackburn, var mjög ánægður með frammistöðu Martin með Blackburn á síðasta tímabili og Martin Olsson fékk nýjan fimm ára samning í sumar. „Martin var frábær á síðasta tímabili. Hann er ungur leikmaður sem hjálpaði okkur mikið," sagði Sam Allardyce.

Martin Olsson kom til Blackburn frá Hogaborgs til ársins 2006 sem vinstri bakvörður en hefur síðan fært sig inn á miðjuna. Marcus er vinstri vængmaður sem hefur verið orðaður við lið frá Þýskalandi og Hollandi í sumar. Hann vill samt frekar komast að í Englandi.

„Ég og Martin höfum sama skrokkinn og ég held að ég myndi aðlagast fljótt að enska boltanum. Ég er meiri sóknarmaður en hann en á meðan hann hefur bætt sig sóknarlega þá hef ég bætt mig varnarlega," sagði Marcus Olsson.

„Við spilum ólíkar stöður á vellinum en ég er mjög stoltur af því hversu vel honum hefur gengið hjá Blackburn. Ég enda kannski í öðru landi en mitt fyrsta val er að spila í ensku úrvalsdeildinni," sagði Marcus Olsson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×