Innlent

Starfshópur fer yfir málefni svínaræktar

Afskipti fjármálastofnana af svínabúum á landinu hafa verið hroðaleg og haft mjög slæm áhrif á greinina. Þetta segir Jón Bjarnason landbúnaðarráðherra. Hann hefur skipað starfshóp sem á að fara yfir málefni svínaræktar svo sem út frá dýravernd.

Á fundi sem ráðherra hélt með fulltrúum Svínaræktarfélags Íslands, Matvælastofnunar, Bændasamtaka Íslands og sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis í gær var farið yfir vanda svínaræktar á Íslandi.

Greinin hefur á einum áratug gengið í gegnum tvö tímabil offramleiðslu, gjaldþrota og verðfalls afurða. Samhliða hefur þróunin verið í átt að aukinni samþjöppun í eignarhaldi. Mikil afskipti bankastofnana hafa síðan veikt samkeppnisgrundvöll smærri rekstrareininga, svo sem þeirra sem meta dýravernd mikils. En greinin hefur að undanförnu sætt mikilli gagnrýni þar sem sumir stórir framleiðendur virðast fara á svig við lög og reglur um dýravernd.

„Sum af þessum búum hafa farið í gegnum þrjú gjaldþrot á innan við áratug, þá hafa bankar tekið búin upp á arma sína, afskrifað skuldir þeirra og sett svo framleiðsluna aftur í gang. Þetta skekkir alla vinnu og samkeppnisstöðu þeirra sem reka sín bú út frá sínum eigin forsendum og af hagkvæmni. Þetta líka hefur skekkt alla framleiðslu í svínarækt, orðið til mikillar samþjöppunnar og myndað stórar einingar sem jafnvel eru staðsettar á stöðum sem maður efast um að geti verið réttar miðað við nútímakröfur," segir Jón Bjarnason.

Hann hefur kallað saman starfshóp til sem á að fjalla um málið og verður hann skipaður fulltrúum framleiðenda, neytenda og þeirra sem eiga að reyna tryggja dýravernd og eftirlit innan greinarinnar.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×