Innlent

Kókaínmálið: Halda hlífiskildi yfir meintum höfuðpaur

SB skrifar
Davíð Garðarsson á leið inn í réttarsal þegar málið var þingfest.
Davíð Garðarsson á leið inn í réttarsal þegar málið var þingfest.
Sakborningarnir í kókaínmálinu sem nú er til aðalmeðferðar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur halda allir hlífiskildi yfir Davíð Garðarssyni, sem sakaður er um að hafa skipulagt innflutninginn. Tveir sakborninganna breyttu framburði sínum verulega frá því í skýrslutökum lögreglu og fyrir dómi í dag.

Davíð Garðarsson mætti fyrir dóm í morgun klæddur hvítri skyrtu og Lacoste skóm. Davíð er ásamt fimm öðrum, þeim Guðlaugi Agnari Guðmundssyni, Pétri Jökli Jónassyni, Orra Frey Gíslasyni og Jóhannesi Mýrdal, sakaður um að hafa staðið að innflutningi á tæplega 1,6 kílói af kókaíni frá Spáni.

Jóhannes Mýrdal játaði sinn þátt í málinu í morgun og sagðist hafa verið burðardýr. Framburður annarra vitna studdu sögu hans. Pétur Jökull og Orri Freyr benda á hvorn annan í málinu. Og Guðlaugur Agnar - sem samkvæmt lögregluskýrslum virðist hafa verið heilinn á bak við smyglið, ásamt Davíð Garðarssyni, neitar alfarið sök.

Í yfirheyrslum yfir Davíð sagði hann sinn þátt í málinu hafa einskorðast við að sækja bíl í eigu Orra Freys. Hann hafi verið að gera honum greiða. Davíð hitti Pétur Jökul við bílinn og keyrði á undan honum að heimili Orra. Á leiðinni koma þeir við í húsi þar sem Pétur Jökull kemur út með töskur. Í töskunum voru fíkniefnin en Davíð sagðist hafa verið grunlaus um það. „Kannski þýfi, en ekki fíkniefni," sagði hann.

Davíð sagði Pétur Jökul hafa verið ofurölvi en hann hafi engu að síður gefið honum lykla að bílnum sínum. Hann hafi á endanum skilið bíl Orra Freys eftir við ofanleiti og keyrt niðrí bæ með Pétri. Við yfirheyrslurnar í dag kom fram að lögreglan hafði komið hlerunarbúnaði fyrir í töskunum.

Davíð var jafnframt spurður út í eina milljón krónur sem Orri Freyr afhenti honum í hvítu umslagi. Skömmu síðar handtók lögreglan Orra Frey og Davíð þar sem þeir sátu saman í bíl. „Hann rétti mér umslagið svona 15 sekúndum áður en við vorum handteknir," sagði Davíð og bætti við að hann hafi stungið umslaginu inn á sig af ótta við að missa það á gólfið.

Framburður þeirra Orra Freys og Pétur Jökuls bendlaði Davíð við málið sem einn af höfuðpaurunum í skipulagi og fjármögnun smyglsins. Framburður Péturs og Orra var nánast samhljóða við skýrslutökur hjá lögreglunni þrátt fyrir að þeir væru ekki í samskiptum. Eftir að þeir losnuðu úr einangrun breyttist framburður beggja og lögðu þeir báðir mikla áherslu á við aðalmeðferðina í morgun að Davíð hefði ekkert með málið að gera.

Saksóknarinn spurði Davíð út í þessa skyndilegu breytingu á framburði þeirra félaga og spurði Davíð hvernig samskiptum hans við meðákærðu hefði verið háttað frá því þeir losnuðu úr einangrun. „...að sjálfsögðu erum við búnir að tala saman. Við erum ákærðir fyrir stórfellt fíkniefnasmygl," sagði Davíð.

Saksóknarinn spurði þá: „Er ekkert undarlegt að eftir að einangrun lýkur og þið byrjið að tala saman þá snarbreytist framburður þeirra í málinu?"

Þeirri spurningu svaraði Davíð ekki.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×