Innlent

Styttist í atkvæðagreiðslu um ákærur

Heimir Már Pétursson skrifar
Meirihluti Atlanefndarinnar leggur enn til að þrír til fjórir fyrrverandi ráðherrar verði ákærðir til Landsdóms. Minnihluti Sjálfstæðismanna í nefndinni telur engar efnislegar forsendur vera til ákæru á hendur ráðherrunum. Atkvæðagreiðsla um málið fer í fyrsta lagi fram á morgun.

Atlanefndin gerði engar breytingar milli umræðna á tillögum sínum hvað varðar ákærur á hendur fjórum fyrrverandi ráðherrum í ríkisstjórn Geirs H. Haarde. Mælt var fyrir álitum meiri- og minnihluta nefndarinnar fyrir þingsályktunum um ákærur á Alþingi í dag, en Sjálfstæðismenn eru einir í minnihlutanum og leggjast gegn ákærum.

Þeir segja engar efnislega forsendur vera fyrir þeim en mæltu margir með því í umræðunum í dag, að rannsókn verði hafin á embættisfærslum embættismanna og ráðherra varðandi Icesave samninga við Breta og Hollendinga.

Harkaleg gagnrýni hafi komið fram um að nefndin hefði ekkert gert til að sýna fram á að ráðherrarnir hafi sýnt af sér ásetning eða stórfellt hirðuleysi við störf sín.

„Auðvitað fór nefndin yfir þá gagnrýni sem lögð var fram og við komust að sömu niðurstöðu og áður," svaraði Atli Gíslason á þingi í dag þegar hann svaraði gagnrýni Sjálfstæðismanna.

Mælendaskrá er ótæmd og ræðutími er rúmur, þannig að atkvæði um tillögurnar verða væntanlega ekki greidd fyrr en í fyrsta lagi á morgun, jafnvel ekki fyrr en á miðvikudag.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×