Enski boltinn

Ancelotti: Þessi sigur heldur okkur inn í titilbaráttunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlo Ancelotti, stjóra Chelsea, var mikið létt eftir 1-0 sigur liðsins á Bolton í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi. Þetta var fyrsti sigur liðsins í sjö leikjum og hann endaði versta gengi liðsins síðan 1999. Chelsea er nú fjórum stigum á eftir toppliði Manchester United.

„Það mikilvægasta af öllu var að ná að breyta andrúmsloftinu, enda þessa hrinu og ná að vinna leikinn," sagði Carlo Ancelotti eftir leikinn. „Þetta var mikilvægt skref í rétt átt," sagði Ancelotti en það var Florent Malouda sem skoraði sigurmarkið eftir frábæran undirbúning Didier Drogba og Essien. Það má sjá svipmyndir úr leiknum með því að smella hér fyrir ofan.

„Ég er ekki viss um að allt verði í lagi eftir þetta því við verðum að bíða og sjá til með það. Við verðum að halda áfram að standa okkur en þessi sigur heldur okkur inn í titilbaráttunni," sagði Ancelotti en Chelsea var með fimm stiga forskot á topppnum fyrir aðeins sjö vikum síðan.

„Við vorum svolítið hræddir í fyrri hálfleiknum sem var eðlilegt af því að það var mikil pressa á liðinu í þessum leik. Seinni hálfleikurinn var mun betri og markið létti mikilli pressu af liðinu," sagði Ancelotti. Owen Coyle, stjóri Bolton, sagði Drogba hafa verið rangstæðan áður en hann lagði upp sigurmarkið fyrir Malouda.

„Ég veit ekki hvort þetta var rangstaða eða ekki en það skiptir mig líka engu máli," sagði Ancelotti enda kannski kominn tími á að hlutirnir dyttu eitthvað með hans liði.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×