Íbúar í blokk í Hafnarfirði fengu óvænta heimsókn í gær þegar villiköttur hreiðraði um sig á efsta stigagangi blokkarinnar. Kötturinn vældi og hvæsti á íbúana sem lentu á vegg þegar þeir hringdu eftir hjálp.
„Við byrjuðum á að hringja í Kattholt, þeir vísuðu okkur til heilbrigðisnefndar Kópavogs og Garðabæjar sem þeir sögðu með umdæmi hér í Hafnarfirði, þar var okkur vísað á áhaldahúsið í Hafnarfirði, og í áhaldahúsinu sögðu þeir venjuna að fólk hringdi bara í meindýraeyði," segir Birgir Svan Símonarson sem býr í blokkinni á Arnarhrauni.
Birgir segist hafa séð villikött ráðast á mann þegar hann var barn að aldri. „Þegar ég var strákur vestur í bæ sá ég villikött ráðast á mann, hann beit í hönd hans og hékk á tönnunum og vildi ekki losna. Þessi dýr geta verið stórhættuleg og það er ágætt að vara fólk við því að reyna að tækla þetta sjálft."
Vísir hefur fjallað um villikattavandamálið sem hingað til hefur einskorðast við Kópavoginn. Í fréttinni Kattafár á Kársnesinu sögðum við frá villiketti sem réðst á ófríska konu sem þurfti í kjölfarið að fá stífkrampasprautu. Í framhaldinu steig Jakob Líndal, arkitekt í Kópavogi, fram og sagði frá baráttu sinni við villikött sem hafði brotist inn á heimili hans meðan fjölskyldan var í sumarbústað.
Jakob gagnrýndi kerfið og sagðist hafa lent í hringekju þegar hann hringdi eftir hjálp og var vísað á milli heilbrigðisfulltrúa, áhaldahúss og meindýraeyða.
„Þetta er nú dálítið fyndið," segir Birgir. „Þarna er fólk sem situr á skrifstofum og bendir á hvort annað. Við þurftum náttúrlega að bera kostnað af þessu í blokkinni, kötturinn pissaði líka í stiganganginum, svo þetta er talsvert vesen að lenda í þessu."
Guðríður Arnardóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi, sagði í samtali við Vísi fyrr í mánuðinum að hún myndi berjast fyrir samræmdum reglum um kattahald. „Ég vona að það verði pólitísk samstaða um þetta mál. Nú er bara að bretta upp ermar og keyra þetta mál í gegn. Ég mun hefja vinnu við það strax eftir helgi," sagði hún.
Enn hefur ekkert bólað á þem reglum sem Guðríður lofaði.