Innlent

Vill íbúakosningar um ráðningu bæjarstjóra Hafnarfjarðar

Rafeindavirkinn Rúnar ætlar að safna undirskriftum gegn bæjarstjóra Hafnarfjarðar.
Rafeindavirkinn Rúnar ætlar að safna undirskriftum gegn bæjarstjóra Hafnarfjarðar.

Hafnfirðingurinn Rúnar Sigurður Sigurjónsson hefur ákveðið að hefja undirskriftasöfnun bæjarbúa til þess að knýja á um íbúakosningu vegna ráðningar Lúðvíks Geirssonar, sem var ráðinn bæjarstjóri eftir að hafa fallið út úr bæjarstjórn. Hann sat í sjötta sæti lista Samfylkingarinnar en flokkurinn náði aðeins fimm mönnum inn. Lúðvík hefur hinsvegar verið bæjarstjóri í átta ár.

„Við erum ekki opinberlega byrjaðir en þetta fer af stað um helgina," segir Rúnar sem starfar sem rafeindarvirki. Hann þarf undirskriftir 25 prósent bæjarbúa eða tæplega 4500 manns.

Aðspurður hvort það sé yfirhöfuð hægt að kjósa um ráðningu bæjarstjórans svarar Rúnar:

„Í reglum bæjarins segir að maður geti kosið um allar samþykktir bæjarins nema þær sem viðkoma fjárhag bæjarins og svo kosningar í nefndir og ráð. Það er ekkert sem segir að ekki séð hægt að kjósa um ráðningu bæjarstjórans."

Rúnar segir mikinn hita í bæjarbúum vegna ráðningar Lúðvíks. Sjálfur telur Rúnar lýðræðið fótum troðið.

„Maðurinn setur sig að veði í bæjarstjórnarkosningum á ekki að vera ráðinn faglegur bæjarstjóri," segir Rúnar. Spurður hvort hann sé á málum hjá flokkspólitískum andstæðingum Lúðvíks svarar Rúnar því til að hann sé bæði skráður í Sjálfstæðisflokkinn og Samfylkinguna.

„Það er til þess að hafa áhrif á uppröðun lista í prófkjörum flokkanna," segir Rúnar sem hefur aldrei verið virkur í flokkspólitík að eigin sögn.

Rúnar segir að undirskriftalistarnir muni hanga á bensínstöðvum og verslunum út um allan bæ. Þar getur fólk skráð nafn sitt og kennitölu deili þeir sömu skoðunum og Rúnar.

„Fyrirkomulagið verður mjög svipað því sem gerðist í undirskriftasöfnuninni varðandi álverið," segir Rúnar en þegar hefur verið safnað nægilegum undirskriftum fyrir að kjósa aftur um stækkun álversins í Straumsvík. Það var í fyrsta skiptið sem íbúalýðræðið var nýtt með slíkum hætti í Hafnarfirði.

Rúnar hefur þrjá mánuði til þess að safna undirskriftunum. Þess má geta að þegar ný bæjarstjórn kom saman 14. júní síðastliðinn þá mættu fjölmargir Hafnfirðingar á fundinn og mótmæltu ráðningu Lúðvíks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×