Innlent

Olíufundur við Grænland skapar tækifæri fyrir Íslendinga

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Iðnaðarráðherra segir að olíufundur við vesturströnd Grænlands geti skapað tækifæri fyrir Íslendinga í þjónustu við vinnslu á olíu á svæðinu. Þá verður samstarf við Norðmenn aukið vegna hugsanlegrar olíuvinnslu á Drekasvæðinu.

Breskt olíufélag Cairns Energy fann olíu við vesturströnd Grænlands í ágúst síðastliðnum. Frá því var greint í morgun að tvenns konar tegundir olíu hefðu fundist, en ekkert bendir til annars en að olían þarna sé í vinnanlegu magni. Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra segir olíufundinn geta haft margvíslegar jákvæðar afleiðingar fyrir okkur Íslendinga. „Það er alveg ljóst að það eru möguleikar í því að við getum verið að þjónusta þá starfsemi sem þarna fer af stað og að því leytinu til geta þetta verið mjög jákvæðar fréttir fyrir okkur Íslendinga. Og við höfum nú þegar, fyrir vestan, verið að horfa til þess að bjóða fram þjónustusvæði fyrir þessa vinnslu að einhverju leyti, ekki vinnsluna sjálfa, heldur starfsemina," segir Katrín.

Iðnaðarráðherra segir að íslensk stjórnvöld hafi ekki sett sig í samband við grænlensku landsstjórnina vegna málsins enn, hins vegar sé gott samstarf milli Íslands og nágrannalanda á þessu sviði gegnum Orkustofnun. Á landgrunni Íslands eru tvö svæði þar sem talið er mögulegt að finna jarðolíu eða jarðgas í nýtanlegu magni, en það eru Drekasvæðið austur og norðaustur af landinu og Gammsvæðið svokallaða úti fyrir Norðurlandi.

Iðnaðarráðherra mun funda með Orkustofnun í þessari viku vegna aukins samstarfs við Norðmenn í tengslum við hugsanlega olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Meðal þess sem rætt verður eru ýmis öryggismál í olíuvinnslu vegna þeirra álitaefna sem komið hafa upp í kjölfar slyssins í Mexíkóflóa. Þá verða skattamál einnig á dagskránni. „Við erum að þétta samstarfið (við Norðmenn innsk. blm) þegar kemur að öryggismálum en einnig að þétta samstarfið þegar kemur að skattlagningu vegna þess að það er mikilvægt að við séum samkeppnishæf í samanburði við Norðmenn á svæðinu. Þannig að við erum að stíga skrefin í nánara samstarfi við Norðmenn," segir Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra.














Tengdar fréttir

Grænland datt í lukkupottinn

Fréttir í gær um að gas hefði fundist undan ströndum Grænlands og vísbendingar um olíu eru taldar auka áhuga alþjóðlegra olíufyrirtækja að hefja olíuleit allt í kringum þetta næsta nágrannaríki Íslands.

Skotar finna olíu við Grænland

Skoska olíufélagið Cairns hefur fundið olíu undan vesturströnd Grænlands. Þetta er í fyrsta sinn sem olía finnst við Grænland en áður hafði Cairns fundið gas á sömu slóðum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×