Innlent

Grænland datt í lukkupottinn

Fréttir í gær um að gas hefði fundist undan ströndum Grænlands og vísbendingar um olíu eru taldar auka áhuga alþjóðlegra olíufyrirtækja að hefja olíuleit allt í kringum þetta næsta nágrannaríki Íslands.

Aðeins eru liðnar sex vikur frá því olíuborpallur og borskip á vegum skosks olíuleitarfyrirtækis Cairn Energy hófu að bora tvær holur í hafinu norðvestur af höfuðstaðnum Nuuk, um 175 kílómetra frá Diskó-eyju. Félagið tilkynnti svo í gær að það hefði komið niður á gas og vísbendingar væru einnig um að þarna væri olía.

Þessar fréttir vöktu heimsathygli í gær enda hefur Jarðfræðistofnun Bandaríkjanna spáð því að undan ströndum Grænlands leynist einhverjar mestu ófundnu olíulindir jarðar. Þótt skýrt væri tekið fram að ekki væri búið að finna gaslind í vinnanlegu magni lýstu ráðamenn skoska félagsins því yfir að gasfundurinn gæfi tilefni til bjartsýni og í dönskum blöðum sáust fyrirsagnir eins og að Grænland hefði dottið í lukkupottinn.

Víst þykir að fréttirnar verða til þess að auka áhuga alþjóðlegra olíufyrirtækja á olíuleit við Grænland og hér á Íslandi segir Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri í viðtali við Fréttablaðið að þetta verði einnig til að auka áhuga á olíuleit við Ísland.

En ekki eru allir ánægðir. Greenpeace-samtökin, sem eru með skip sitt nærri borpallinum við Grænland, sendu frá sér yfirlýsingu í gær vegna gasfundarins þar sem þau hvöttu til þess að olíuboranir yrði bannaðar á heimskautasvæðum. Þess má geta að Drekasvæðið, þar sem Íslendingar buðu út olíuleit í fyrra, er norðan heimskautsbaugs.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×