Innlent

Lilja Mósesdóttir: Margir sagt sig úr VG vegna Magma

Lilja Mósesdóttir hefur fengið harða gagnrýni frá grasrótinni út af Magma málinu.
Lilja Mósesdóttir hefur fengið harða gagnrýni frá grasrótinni út af Magma málinu.

„Ég hef fengið mjög harðorða gagnrýni frá mínum stuðningsmönnum og margir hafa sagt sig úr flokknum vegna málsins," segir Lilja Mósesdóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs um óánægju með kaup kanadíska orkufyrirtækisis Magma á hlut Geysis Green Energy á HS Orku.

Þingmaðurinn telur óánægjuna meðal annars útskýra mikið fylgistap Vinstri grænna í Reykjavík en borgarstjórnarflokkurinn hefur tapað mestu fylgi samkvæmt skoðanakönnunum sem hafa verið gerðar undanfarnar vikur.

Aðspurð hversu margir hafi sagt sig úr flokknum, segist Lilja ekki vera viss um það. Hún bætir svo við: „Svo má vera að flokksmennirnir hafi ekki farið alla leið og sagt sig úr flokknum."

Það er ljóst að grasrótahreyfingin innan flokksins er mjög ósátt við Magma kaupin og vilja margir meina að þingflokkurinn hafi látið undir höfuð leggjast að stöðva áformin. Lilja bendir hinsvegar á að Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, reyndi að fá lífeyrissjóðina til liðs við sig til þess að fjárfesta í hlutnum á síðasta ári. Það gekk þó ekki upp og því fór sem fór.

Annað og umdeilt atriði er þjóðerni Magma, sem er kanadískt að uppruna. Fyrirtækjum utan EES svæðisins er ekki heimilt að fjárfesta á Íslandi. Magma kunni þó ráð við því og stofnaði útibú í Svíþjóð sem aftur fjárfesti í HS orku.

Málið var tekið fyrir í nefnd um erlendar fjárfestingar á Alþingi. Þar komst nefndin að þeirri niðurstöðu að fyrirtækið mætti fjárfesta í gegnum sænska fyrirtækið sem Lilja kallar skúffufyrirtæki.

„Mér finnst nefndin hafi farið mjög langt með að auðvelda Magma að koma hingað inn til lands og fjárfesta," segir Lilja sem gagnrýnir niðurstöðu nefndarinnar harðlega enda fordæmið slíkt að nú geta fyrirtæki víðsvegar um heiminn fjárfest í orkulindum hér á landi, svo lengi sem fyrirtækin stofna félög innan EES svæðisins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×