Innlent

Útilokar ekki frekari uppsagnir

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Staða Orkuveitu Reykjavíkur er krítísk. Mynd/ Róbert.
Staða Orkuveitu Reykjavíkur er krítísk. Mynd/ Róbert.
Haraldur Flosi Tryggvason, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavikur, útilokar ekki frekari uppsagnir starfsfólks hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Aðspurður segir hann að verið sé að velta við hverjum steini í rekstrinum og það sé von á talsverðum hækkunum á gjaldskrám. „Mér finnst það þá eðlileg krafa að það sé þá reynt að spara eins og kostur er í rekstrinum á móti," segir Haraldur Flosi. Því miður verði þá að gera ráð fyrir einhverjum uppsögnum starfsfólks.

Hjörleifi Kvaran forstjóra fyrirtækisins var sagt upp störfum í gær. Haraldur segir að nú standi fyrir dyrum að hanna skothelt ráðningarferli áður en framtíðarforstjóri fyrirtækisins verði ráðinn. „Það er meiningin að gera þetta vel og eins og dæmin sanna þá er það ekki endilega auðvelt. Það er líka meiningin að gera starfslýsinguna þannig að hún þjóni fyrirtækinu rétt," segir Haraldur Flosi. Um ástæður uppsagnarinnar segir Haraldur Flosi að það hafi verið mat þeirra sem að henni stóðu að það væri æskilegt að fá nýjan verkstjóra að rekstri fyrirtækisins. Hann segir að staða fyrirtækisins sé krítísk og það þurfi að bregðast við því. Hins vegar eigi að halda uppsögn Hjörleifs aðskildu frá þeirri úttekt sem nú sé verið að gera á rekstri fyrirtækisins. „Við ætlum ekkert að gera Hjörleif Kvaran að blóraböggli sem rót alls vanda sem við er að etja. Það er langt því frá," segir Haraldur Flosi. Ástæða fyrir ástandi fyrirtækisins séu flóknari en það.

Orkuveita Reykjavíkur veitir íbúum í mörgum nágrannasveitarfélögum heitt vatn og Haraldur Flosi segir að víðar en í Reykjavík megi búast við gjaldskrárhækkunum. Sumsstaðar sé OR skuldbundin til þess að hafa verðlag eins og í Reykjavík. Í öðrum tilvikum verði farið yfir það hvaða forsendur eru í samningum. Haraldur Flosi býst við því að í lok þessa mánaðar muni liggja fyrir hvaða breytingar verði gerðar á gjaldskrá Orkuveitu Reykjavíkur.


Tengdar fréttir

Forstjóra Orkuveitunnar sagt upp

Tillaga stjórnarformanns Orkuveitu Reykjavíkur (OR) um að Hjörleifi Kvaran verði vikið frá störfum sem forstjóri OR var samþykkt í kvöld. Þetta kom fram í seinni fréttum RÚV í kvöld.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×