Innlent

Of snemmt að segja hvort ráðherrarnir fari fyrir landsdóm

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Atli Gíslason segir ekki ljóst á þessari stundu hvort ráðherrarnir verði dregnir fyrir landsdóm. Mynd/ GVA.
Atli Gíslason segir ekki ljóst á þessari stundu hvort ráðherrarnir verði dregnir fyrir landsdóm. Mynd/ GVA.
Það er of snemmt að segja til um hvort ráðherrarnir sem sakaðir eru um vanrækslu í starfi verði kærðir til landsdóms fyrir vanrækslu í starfi. Þetta segir Atli Gíslason, formaður þingmannanefndar sem hefur það hlutverk að ákveða hvað gert verði með niðurstöður skýrslunnar. Þeir Geir H. Haarde, Árni Mathiesen og Bjögvin G. Sigurðsson eru allir sakaðir um vanrækslu í starfi í aðdragandann að bankahruninu. Það sama á við um seðlabankastjórana þrjá og forstjóra Fjármálaeftirlitsins.

„Við eigum bara algjörlega eftir að ræða það í nefndinni þannig að ég geti ekki tjáð mig um það," segir Atli Gíslason, aðspurður um það hvernig brugðist verði við skýrslunni. Hann segir að nefndin hafi fundað þrettán sinnum án þess að hafa séð skýrsluna. Nefndin muni svo funda með Rannsóknarnefnd Alþingis á morgun. Atli segir að nefndin þurfi að taka ákvörðun fyrir þinglok, sem þýðir að nefndin hefur að öllum líkindum frest allt fram í september.

Atli segir að það sé hreint með ólíkindum að nefndin skildi klára skýrsluna með jafn vönduðum hætti og raun ber vitni á þetta skömmum tíma. Hann telur að þær tafir sem hafi orðið á skýrslunni séu af hinu góða. Hún sé greinilega vandaðri fyrir vikið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×