Innlent

Fresta ráðningu um óákveðinn tíma

Guðmundur Bjarnason
Guðmundur Bjarnason
Stjórn Íbúðalánasjóðs frestaði á fundi í fyrrakvöld ráðningu nýs forstjóra í stað Guðmundar Bjarnasonar sem lét af störfum um síðustu mánaðamót.

Alls bárust tuttugu og sex umsóknir um starfið og hafa fjórir umsækjendur verið boðaðir í viðtal. Meðal þeirra eru Ásta H. Bragadóttir, sem er aðstoðarframkvæmdastjóri og starfandi framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs, og Yngvi Örn Kristinsson, fyrrverandi forstöðumaður hjá Landsbanka Íslands. Hann hefur verið starfað sem ráðgjafi félagsmálaráðherra.

Talið er að þessi tvö komi helst til greina í starf nýs framkvæmdastjóra.

Eins og fyrr sagði var ákvörðun um ráðningu framkvæmdastjóra frestað á stjórnarfundi sjóðsins í gær. Ákveðið var að Ásta myndi áfram gegna starfi framkvæmdastjóra um óákveðinn tíma.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er ekki ljóst hvort málið verður sett á dagskrá næsta stjórnarfundar eftir tvær vikur.

Skipunartími núverandi stjórnar Íbúðalánasjóðs rennur út í lok þessa árs. Stjórnin var skipuð til fjögurra ára í tíð Magnúsar Stefánssonar, félagsmálaráðherra Framsóknarflokksins, í lok árs 2006.

Fjórir af fimm stjórnarmönnum eru fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. - pg



Fleiri fréttir

Sjá meira


×