Innlent

Vilja sjónarmið nítján ráðherra frá 2007

Atli Gíslason, formaður nefndarinnar.
Atli Gíslason, formaður nefndarinnar.
Allir ráðherrar sem sátu í ríkisstjórn frá 1. janúar fram að hruni hafa fengið bréf frá þingmannanefnd um rannsóknarskýrsluna. Þar er þeim gefinn kostur á því að útskýra sitt sjónarmið varðandi aðkomu þeirra að hruninu eða aðgerðaleysi.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er tímasetningin miðuð við fyrningarákvæði varðandi Landsdóm. Málum verður ekki vísað til hans vegna gjörða sem fram fóru fyrir 1. janúar 2007.

Þingmannanefndin hefur lagt mikla áherslu á að ljúka þessum þætti rannsóknar sinnar sem fyrst. Óvíst er hvort nefndin mun skoða ráðslag fleiri ráðherra, þó, formsins vegna, ekki verði hægt að vísa þeim málum til Landsdóms. Samkvæmt heimildum blaðsins hafa ráðherrarnir fyrrverandi frest til 8. júní til að svara erindinu.

Atli Gíslason, formaður nefndarinnar, vildi ekki tjá sig um bréfasendingarnar. Hann sagði í vikunni að nefndin gerði allt sem í hennar valdi stæði til að skila vinnu sinni innan tímamarka. Henni er ætlað að skila tillögum sínum á yfirstandandi þingi, en samkvæmt nýrri starfsáætlun verða þinglok 15. september. Atli sagði þó mögulegt að þingmannanefndin þyrfti lengri tíma.

Nefndin hefur lagt mikla áherslu á að vinna fyrir opnum tjöldum og fundargerðir hennar birtast á Netinu. Atli segir bréfin dæmi um gagnsæja stjórnsýslu nefndarinnar.kolbeinn@frettabladid.is

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×