Innlent

Mótmæli í hádeginu: Það stefnir allt í óefni

Hörður Torfason þegar mótmælin stóðu sem hæst.
Hörður Torfason þegar mótmælin stóðu sem hæst.

„Það virðist allt stefna í óefni," segir Hörður Torfason, tónlistarmaður, en hann ætlar að sýna samstöðu og mótmæla í fyrir utan Seðlabankann í hádeginu í dag. Boðað hefur verið til mótmæla fyrir utan Seðlabankann vegna tilmæla bankans og FME varðandi vexti sem gengistryggðu lánin eigi að bera.

Tilmælin hafa valdið mikilli úlfúð og er hart deilt hvort samningarnir eigi að bera samningsvextina eða ekki.

Hörður var mjög áberandi í búsáhaldabyltingunni eftir hrun. Meðal annars skipulagði hann mótmælaröð þar sem mótmælt var á hverjum laugardegi í marga mánuði. Hörður segir þau mótmæli hafa tekið mikinn toll af honum. Svo mikinn í raun að hann lá beinlínis veikur á eftir.

„Ég var í þessu dag og nótt og bar öll merki streitu og þreytu í kjölfarið," segir Hörður en hann kemur ekki að skipulagningu mótmælanna í hádeginu heldur voru þau auglýst á Facebook auk þess sem smáskilaboð hafa gengið manna á milli.

Hörður segist hafa samúð með þeim sem hafa veri blekktir að hans sögn.

Spurður hvort ný ríkisstjórn hafi valdið vonbrigðum segir Hörður að það sé í raun kerfið í heild sinni sem er bilað.

„Það þarf nýja stjórnarskrá," segir Hörður.

Mótmælin hefjast klukkan tólf á hádegi og er fólk hvatt til þess að mæta með búsáhöld.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×