Innlent

Gleymdi skilríkjunum en fékk samt að kjósa

Jón Gnarr ásamt fjölskyldunni.
Jón Gnarr ásamt fjölskyldunni.

„Ég fór í sparifötin og gleymdi þess vegna veskinu upp á kosningaskrifstofunni," sagði Jón Gnarr, oddviti Besta flokksins, í viðtali á Bylgjunni en hann átti ekki að fá að kjósa í ljósi þess að hann hafði engin persónuleg skilríki á sér. Fyrir vikið kom maður frá yfirkjörstjórninni sem vottaði að maðurinn væri í raun Jón Gnarr. Þess vegna tókst honum að kjósa að lokum.

Spurður hvort hann hafi ekki sagt setninguna frægu, „veistu ekki hver ég er?" hlær Jón Gnarr og viðurkennir að hann hafi ekki gert það.

„Það kom maður frá yfirkjörstjórninni og vottaði mig," sagði Jón.

Besti flokkurinn hefur fengið ótrúlegan meðbyr í skoðanakönnunum undanfarið og mælast sem stærsti borgarstjórnarflokkurinn í dag. En Jón finnur fyrir hörkunni í stjórnmálunum en undirstrikar að hann sjálfur hafi ekki veist að fólki eða frambjóðendum persónulega.

„En mér hefur fundist svolítið leiðinlegt hvernig margir hafa veist að mér og framboðinu með ljótum orðum," sagði Jón. Aðspurður um frekari skýringar á þessum árásum svaraði hann:

„Fólk hefur skrifað um mig á bloggsíðum og kallað mig uppnefnum sem mér finnst ég ekki eiga skilið," svaraði Jón að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×