Önnur plata Amiinu, Puzzle, hefur fengið góða dóma erlendis að undanförnu. Gagnrýnandi breska tónlistartímaritsins Mojo gefur plötunni fjórar stjörnur af fimm mögulegum í einkunn. Sömu sögu er að segja um dagblaðið The Independent sem gefur henni fjórar stjörnur og segir tónlistina fallega og fíngerða.
Góðir dómar um plötuna hafa einnig birst í Frakklandi og víðar í Evrópu. Amiina hefur séð um útgáfu og dreifingu plötunnar erlendis með vel heppnaðri heimasíðu sinni. Þar geta aðdáendur keypt Puzzle á stafrænu formi og á geisladiski.
