Innlent

Skipstjóri dæmdur fyrir að sigla undirmönnuðu skipi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Karlmaður hefur verið dæmdur í Héraðsdómi Suðurlands fyrir að hafa siglt skipi sínu undirmönnuðu. Ekki var yfirvélstjóri um borð í skipinu þegar að það sigldi úr höfn þann 12. nóvember í fyrra. Ákærði játaði brot sitt en taldi að skipið hefði verið í góðum höndum þrátt fyrir þetta, vegna reynslu þeirra manna sem voru í áhöfn. Maðurinn þarf að greiða 50 þúsund krónur í sekt vegna brots síns.

Þá var maðurinn jafnframt ákærður fyrir skjalafals, en hann var grunaður um að hafa fyrr í nóvember skráð mann sem yfirvélstjóra á skipinu sem ekki var í ferðinni. Maðurinn sagði fyrir dómi að hann hafi ekki vitað fyrr en skömmu áður en veiðiferðin hófst, að yfirvélstjórinn kæmist ekki með, nánar til tekið þegar yfirvélstjórinn hafi hringt í sig og boðað forföll vegna veikinda. Framburður yfirvélstjórans fyrir dómi studdi frásögn hins ákærða. Maðurinn var sýknaður af seinni ákærunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×