Innlent

Allir fimmtán í landsdómi þurfa að taka afstöðu til kröfu Sigríðar

Sigríður J. Friðjónsdóttir, saksóknari Alþingis.
Sigríður J. Friðjónsdóttir, saksóknari Alþingis.
Að óbreyttum lögum þurfa allir fimmtán dómendur í landsdómi að taka afstöðu til þeirrar kröfu saksóknara Alþingis að fá aðgang að gögnum rannsóknarnefndar Alþingis, en þjóðskjalavörður hefur neitað um aðgang að nauðsynlegum gögnum, eins og yfirheyrslum rannsóknarnefndar og tölvupóstum Geirs H. Haarde.

Sigríður J. Friðjónsdóttir er saksóknari Alþingis og hefur það hlutverk að sækja Geir H. Haarde til saka fyrir landsdómi vegna meintrar vanrækslu og meintra brota á lögum á ráðherraábyrgð vegna embættisfærslna í aðdraganda bankahrunsins.

Sigríður fór fram á að það við Þjóðskjalasafnið, sem geymir gögn rannsóknarnefndar Alþingis, að fá afhentar skýrslutökur yfir Geir og tölvupósta sem hann sendi þegar hann var forsætisráðherra. Þjóðskjalasafnið synjaði beiðninni með vísan til stjórnarskrárákvæðis um friðhelgi einkalífs, en Fréttablaðið greinir frá þessu í dag. Sigríður segir að án gagnanna verði tæplega hægt að útbúa ákæru í málinu. „Ég tel mjög mikilvægt að fá í hendur þessar skýrslur sem ég hef óskað eftir, en ég hef líka óskað eftir mjög mörgum öðrum gögnum eða skjölum sem ég á vona á að fá afhent mjög fljótlega," segir Sigríður fréttastofu.

Frumvarp hjá allsherjarnefnd

Sigríður mun láta á það reyna hvort hún fái aðgang að gögnunum og hyggst því leggja fram beiðni um haldlagningu þeirra eftir áramót. Slík beiðni færi líklega fyrir landsdóm, en í dómnum sitja fimmtán dómendur.

Lagt hefur verið fram frumvarp til laga um breytinga á lögum um landsdóm m.a til að ná fram því réttarfarshagræði að ekki þurfi að kalla til alla dómendur til þess að taka afstöðu til kröfu um gagnaöflun og að nóg sé að þrír dómendur taki afstöðu til slíkra atriða. Að lokinni fyrstu umræðu um frumvarpið fer það til umfjöllunar hjá allsherjarnefnd Alþingis. Sigríður segir að án lagabreytingarinnar þurfi allir dómendur að taka afstöðu til kröfunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×