Innlent

Hætt við nauðungaruppboð eftir klukkustund

Mynd tengist frétt ekki beint.
Mynd tengist frétt ekki beint.
Sýslumaðurinn í Reykjavík stöðvaði uppboð á húsi í dag eftir að eigandinn mótmælti uppboðinu á þeim forsendum að óvissa ríki um upphæð skuldarinnar en á húsinu hvílir gengistryggt lán. Er þetta í fyrsta sinn sem sýslumaður stöðvar uppboð vegna þessa.

Frjálsi fjárfestingabankinn fór fram á nauðungarsölu á húsi í Reykjavík og hófst uppboðið í hádeginu í dag. Eigandi hússins sem er í vanskilum hjá bankanum mótmælti óvænt uppboðinu en hann telur það byggja á ólögmætri kröfu.

Skuldarinnar vísaði í nýlegan dóm Hæstaréttar um gengistryggð bílalán, en í kjölfar þess dóms ríkir mikil óvissa um lögmæti gengistryggðra húsnæðislána.

Á húsinu er áhvílandi myntkörfulán í yenum og svissneskum frönkum, sem hefur tvöfaldast frá því það var tekið. Eigandi hússins vildi ekki koma í viðtal en ræddi við fréttastofu um málið í dag.

Þegar uppboðið hafði staðið yfir í um klukkustund ákvað sýslumaður að stöðva það og taka þar með tillit til mótmæla skuldarans. Þær upplýsingar fengust hjá sýslumannsembættinu að þetta sé í fyrsta sinn sem sýslumaður stöðvar uppboð vegna óvissu um lögmæti gengistryggðra húsnæðislána. Eftir að sýslumaður stöðvaði uppboðið lýsti Frjálsi fjárfestingabankinn því yfir að hann hygðist kæra niðurstöðuna til héraðsdóms.

Þær upplýsingar fengust hjá bankanum í dag að umrætt mál hafi verið í uppboðsferli frá því í ágúst í fyrra. Eftir þann tíma hafi bankinn glatað þeim möguleika að fresta uppboðinu. Ekki sé búið að taka endanlega ákvörðun um hvort ákvörðun sýslumanns verður kærð. Þá bendir Frjálsi fjárfestingabankinn á þau úrræði sem standi skuldurum með erlend lán til boða. Ákveði lántakendur að nýta sér þau úrræði, fari þeir sjálfkrafa af vanskilaskrá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×