Lífið

Mennt er máttur

Hljómsveitin Valdimar er skipuð vel menntuðum tónlistarmönnum. Söngvarinn Valdimar Guðmundsson stendur í miðjunni. fréttablaðið/daníel
Hljómsveitin Valdimar er skipuð vel menntuðum tónlistarmönnum. Söngvarinn Valdimar Guðmundsson stendur í miðjunni. fréttablaðið/daníel
Hljómsveitin Valdimar sendi frá sér fyrstu plötu sína á dögunum.

Meðlimir poppsveitarinnar Valdimar, sem eru flestir frá Keflavík, eru allir vel menntaðir tónlistarmenn. Þrír eru útskrifaðir tónsmiðir frá Listaháskólanum og einn úr tónlistarskóla FÍH í trommuleik. Sveitin gaf fyrir skömmu út sína fyrstu plötu, Undraland, sem hefur fengið góðar viðtökur.

„Stefnan er að reyna að mennta sig eins mikið og á eins breiðu sviði og maður getur,“ segir söngvarinn Valdimar Guðmundsson. Hann lauk tónsmíðanámi sínu við Listaháskólann í vor og er núna í FÍH á djass- og rokkbraut. Hann stefnir einnig á að ljúka námi sínu í djassbásúnuleik þarnæsta vor. „Þetta er gott hljóðfæri í poppið, finnst mér,“ segir hinn 25 ára Valdimar um básúnuna sem hann notar óspart í hljómsveitinni.

Hún var stofnuð sumarið 2009 eftir að Valdimar og gítarleikarinn Ásgeir Aðalsteinsson höfðu verið að semja lög í smá tíma. Þrír meðlimir bættust við sveitina, Guðlaugur Már Guðmundsson, Þorvaldur Halldórsson og Kristinn Evertsson, auk þess sem nokkrir gestaspilarar koma við sögu á tónleikum.

Valdimar segir að hljómsveitir á borð við Radiohead, Bítlana og Arcade Fire séu sameiginlegir áhrifavaldar hjá bandinu. Hún hlusti samt á fjölbreytta tónlist og áhrifin komi því úr fleiri áttum.

Útgáfutónleikar Valdimars vegna nýju plötunnar verða í Fríkirkjunni 27. nóvember.

freyr@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.