Innlent

„Ég á ekki orð yfir þessum fjölda“

Boði Logason skrifar
Bryndís Bjarnarson ásamt öðrum konum úr Skottunum. Mynd/Stefán
Bryndís Bjarnarson ásamt öðrum konum úr Skottunum. Mynd/Stefán
„Ég er alveg alsæl og við erum það allar í skottunum," segir Bryndís Bjarnarson, framkvæmdastjóri Kvennafrídagsins 2010. Hún segist reikna með því að um 80 þúsund konur hafi safnast saman í dag um land allt.

„Samtaða kvenna á Íslandi er alveg einstök. Það gekk allt rosalega vel þrátt fyrir veður, halarófan frá Hallgrímskirkjutorgi niður að Arnarhóli var ótrúleg, það tók 45 mínútur að komast niður eftir."

Hún segir að þrátt fyrir að veðrið hafi ekki verið gott þá eigi hún ekki orð yfir þeim fjölda sem lagði leið sína í miðbæinn í gær. „Við áttum von á þessum fjölda í bæinn án þess að veðrið myndi setja strik í reikninginn, ég veit ekki hvernig þetta hefði verið ef veðrið hefði verið í eins og til dæmis í gær, ég á ekki orð yfir þessum fjölda."

Umboðskona Sameinuðu þjóðanna í ofbeldismálum, Rashida Manjoo, var með þeim á sviðinu í dag og segir Bryndís að það hafi mikið að segja að fá sérfræðing í ofbeldismálum með sér í lið.

„Lögreglan sagði að það væru um 50 þúsund manns í miðbæ Reykjavíkur en þá voru ekki allir komnir. Ég giska á 80 þúsund manns um allt landi hafi tekið þátt í kvennafrídeginum," segir Bryndís og tekur fram að á Austfjörðum hafi rúta keyrt á milli vinnustaða þar sem konur hafi verið sóttar.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×