Innlent

Íslendingar verða hugsanlega 437 þúsund talsins

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Gert er ráð fyrir að Íslendingum fjölgi verulega. Mynd/ Anton.
Gert er ráð fyrir að Íslendingum fjölgi verulega. Mynd/ Anton.
Íslendingar verða tæplega 437 þúsund talsins hinn 1. janúar 2060 miðað við mannfjöldaspá Hagstofu Íslands en eru nú tæplega 318 þúsund talsins. Hagstofan gaf út mannfjöldaspá í morgun.

Að þessu sinni eru gerð þrjú afbrigði, svokölluð lágspá, miðspá og háspá. Afbrigðin miðast við ólíkar forsendur um fjölda barna á ævi hverrar konu og búferlaflutninga. Talan 437 þúsund miðast við svokallaða miðspá. Í lágspánni verða íbúar 386.500 í lok spátímabilsins en 493.800 samkvæmt háspánni.

Hagstofan gerir ráð fyrir áframhaldandi fólksfækkun á yfirstandandi ári, en að frá og með árinu 2011 muni fólki fjölga á landinu þrátt fyrir neikvæðan flutningsjöfnuð á því ári og hinu næsta.

Í miðspá og háspá er gert ráð fyrir náttúrlegri fólksfjölgun út spátímabilið. Með náttúrlegri fólksfjölgun er átt við fleiri fædda en dána. Samkvæmt lágspánni verða dánir hins vegar fleiri en fæddir frá og með árinu 2052. Þá yrði fjölgun íbúa eingöngu rakin til jákvæðs flutningsjafnaðar.

Meðalævi mun halda áfram að lengjast bæði hjá körlum og konum. Karlar geta vænst þess að verða 79,7 ára nú en meðalævilengd þeirra verður 85 ár í lok spátímabilsins. Konur geta vænst þess að verða 83,3 ára en spáð er að sá aldur verði kominn í 87,1 ár í lok spátímabilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×