Innlent

Ástæða til að skoða stöðu leikskólakennara

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Oddný G. Harðardóttir, formaður menntamálanefndar, treystir sér ekki til að fullyrða um ástæður þess að ekki tekst að manna leikskóla.
Oddný G. Harðardóttir, formaður menntamálanefndar, treystir sér ekki til að fullyrða um ástæður þess að ekki tekst að manna leikskóla.
Formaður menntamálanefndar Alþingis telur ástæðu til að skoða stöðu leikskólakennara. Vísir greindi frá því í síðustu viku að nánast hvergi á landinu tekst að fullmanna stöður á leikskólum með fagmenntuðum leikskólakennurum. Ástandið gæti versnað því að umsóknum um leikskólakennaranám virðist fækka.

Nám í leikskólakennarafræðum og grunnskólakennarafræðum var nýlega lengt úr þremur árum í fimm ár. Oddný G. Harðardóttir, formaður menntamálanefndar Alþingis, segist ekki geta fullyrt að lenging námsins sé ástæða fyrir því að ekki tekst að manna stöður. „Ég þori bara ekkert að fullyrða um það," segir Oddný.

Hún segist hafa mikinn áhuga á því að kanna mál leikskólanna gaumgæfilega „Það skiptir miklu máli fyrir starfið í leikskólunum að þar sé vel menntað fólk. En við höfum átt í þessum erfiðleikum jafnvel þó að námið hafi bara verið þriggja ára," segir Oddný. Hún telur að skoða þurfi vel hvers vegna ekki tekst að manna stöður á leikskólunum. „Kannski er skýringanna að leita í öðru en lengd námsins. Það gæti verið eitthvað varðandi starfsaðbúnað eða kjör," segir Oddný. Hún segir þó ekki svigrúm til þess að bæta kjör leikskólakennara núna. „Ég held að það sé lítið svigrúm til að bæta kjör yfirleitt - núna í kreppunni," segir Oddný.




Tengdar fréttir

Nánast allsstaðar vantar leikskólakennara til starfa

Erfiðlega gengur að ráða fagmenntaða leikskólakennara til starfa og nánast ekkert sveitarfélag á Íslandi getur uppfyllt lágmarksfjölda menntaðra leikskólakennara sem kveðið er á um í lögum frá árinu 2008. Ingunn Gísladóttir, starfsmannastjóri Leikskólasviðs Reykjavíkurborgar, segir að ástæðan sé fyrst og fremst sú að allt of fáir hafi farið í leikskólakennaranám undanfarin ár.

Færri vilja verða leikskólakennarar

Aðsókn að leikskólakennaranámi við Háskóla Íslands hefur minnkað upp á síðkastið þrátt fyrir að ekki takist að fullmanna stöður á leikskólum með fagmenntuðum leikskólakennurum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×