Innlent

Svara brýnni þörf göngufólks

Nýju brýrnar eru mikið þarfaþing enda er Þórsmerkursvæðið eitt vinsælasta göngusvæði landsins.
Nýju brýrnar eru mikið þarfaþing enda er Þórsmerkursvæðið eitt vinsælasta göngusvæði landsins.
'Nýjar göngubrýr hafa verið settar upp yfir Krossá á Þórsmerkursvæðinu. Áhugamannafélagið Útivist stendur fyrir framtakinu og segir Skúli H. Skúlason framkvæmdastjóri Útivistar, að brýrnar leysi úr brýnni þörf hjá göngufólki sem þarf að komast milli Goðalands og Þórsmerkur.

„Þetta er eitt vinsælasta göngusvæði landsins og margir sem þurfa að komast á milli,“ segir Skúli. „Það sem af er sumri höfum við átt í miklum vandræðum.“

Göngubrú var undir Valahnjúki en jökulár eins og Krossá breyta gjarnan farvegi sínum og síðustu ár hefur hún mestmegnis runnið framhjá brúnni. Nýju brýrnar eru á hjólum og er því hægt að færa þær.

Ferðamálastofa styrkti smíði brúnna, en þær kostuðu 600 þúsund krónur hver. „Það er þannig með þetta verkefni eins og mörg önnur, að þegar mikið af hæfileikaríku fólki kemur er auðvelt að framkvæma svona stórvirki,“ segir Skúli.

Brýrnar eru staðsettar á Krossár-aurum gegnt Básum á Goðalandi og Stóraenda í Þórsmörk og nýtast meðal annars fyrir gönguleiðina um Fimmvörðuháls yfir í Langadal og Húsadal. - sv



Fleiri fréttir

Sjá meira


×