Einar S. Einarsson, einn af forsvarsmönnum RJF hópsins, gagnrýnir uppgröftinn á líki skákmeistarans Bobby Fischer. Hann segir að eðlilegra hefði verið að leita fyrst að lífsýnum í íbúð Fischer, það hafi hins vegar ekki verið gert.
„Mér finnst undarlega að þessu staðið," segir Einar S. Einarsson en RJF hópurinn stóð að björgun Fischer og komu hans til landsins. „Það hefði verið eðlilegra að þrengja fyrst hringinn, eða sönnunarbyrgðina, með að leita fyrst eftir lífsýnum í íbúð Fischers. Til dæmis að hárum eða nöglum sem hann gæti hafa klippt af sér."
Það var hins vegar ekki gert, að sögn Einars. „Það var leitað eftir blóðprufum á Landspítalanum þar sem hann lá veikur en blóðprufur eru aðeins geymdar í þrjá mánuði svo það var of seint."
Einar segir engu að síður nauðsynlegt að fá þetta á hreint. „En ég hef enga trú á því hann eigi þetta barn þó hann hafi gert sér dælt við það og stutt móðirina fjárhagslega," bætir hann við.
Einar segir merkilegt að Fischer sé eini skákmeistarinn sem ávalt kemst á forsíður heimsblaðanna þrátt fyrir að hann sé látinn. En allir helstu fjölmiðlar heims hafa greint frá uppgreftrinum á líki Fischers nú í dag.
„Ég held hann hefði verið mjög frábrugðinn svona aðferðum," segir Einar um uppgröftrinn á líki stórmeistarans - sem sneri sér ekki við í gröfinni heldur var grafinn upp.