Innlent

Grafir hafa áður verið opnaðar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Engin fordæmi eru fyrir því að gröf sé opnuð eftir dómsúrskurð líkt og gert var í nótt með gröf Bobbys Fischer. Þórsteinn Ragnarsson, formaður Kirkjugarðasambands Íslands, segir þó að dómsúrskurður hafi fengist um að opna gröf á Höfn í Hornafirði á miðjum 10. áratug síðustu aldar í því skyni að fá lífssýni. Eftir dómsúrskurðinn hafi komið fram að krufning hafði farið fram og því þurfti aldrei að koma til þess að gröfin yrði opnuð.

Þórsteinn Ragnarsson, sem jafnframt er forstjóri Kirkjugarða Reykjavikurprófastdæma, bætir við að lögum samkvæmt megi færa til kistur og flytja þær eftir ákveðnum reglum. Það hafi verið gert. „Bæði innan kirkjugarða, milli kirkjugarða og jafnvel á milli landa," segir Þórsteinn. Tiltölulega skammt sé síðan að kista hafi verið grafin upp og flutt til Póllands. Það þurfi hins vegar að framfylgja ákveðnum lagabókstaf þegar þetta sé gert.

-----------------

Athugasemd

Í frétt Vísis fyrr í dag var vitnað í orð Þórsteins Ragnarssonar og Ólafs Helga Kjartanssonar sem höfðu báðir sagt að gröf hefði verið opnuð á Höfn í Hornafirði. Við nánari eftirgrennslan Þórsteins komst hann að því að um misminni hafði verið að ræða.











Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×