Ung íslensk hjón létust í morgun í bílslysi nálægt bænum Mugla í suðvesturhluta Tyrklands.
Upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins staðfesti þetta í samtali við Vísi. Sjö mánaða gamalt barn hjónanna var með í bifreiðinni en það er óslasað eftir því sem upplýsingafulltrúi kemst næst.
Ræðismaður Íslands í Tyrklandi er kominn á staðinn og vinnur meðal annars að því að koma barninu til Íslands.
Hjónin voru á ferðalagi en hvorki nöfn né aldur þeirra verður gefin upp að svo stöddu. Ráðuneytið fékk upplýsingar um slysið í morgun. Talið er að ökumaður bílsins hafi misst stjórn á bifreiðinni í rigningu sem varð til þess að hann ók á smárútu.