Umhverfisstofnun hefur sent Sýslumanninum á Hvolsvelli erindi og óskað eftir því að hann rannsaki meintan akstur sjónvarpsfólks úr Top Gear þáttunum utanvegar á Fimmvörðuhálsi.
Þetta kemur fram í tilkynningu sem Umhverfisstofnun sendi frá sér nú síðdegis. Þar er bent á að bannað sé að aka utan vega og mikilvægt sé að fólk gangi vel um gossvæðið á ferðum sínum um það. Einungis sé heimilt að aka utan vega á jöklum og á frosinni jörð sem sé snævi þakin.
James May, einn af stjórnendum Top Gear þáttanna, sem sýndir hafa verið á BBC við miklar vinsældir, hefur verið staddur hér á landi undanfarna daga með tökuliði til að taka upp efni af jöklinum. Lögreglan hefur gagnrýnt ferðir þeirra, meðal annars vegna þess að þeir keyrðu eitt dekk af bifreið upp á hraunjaðar og létu kvikna í því.
