Innlent

Dómurinn ekki bundinn við refsikröfur saksóknara

Ásmundur Helgason
Ásmundur Helgason
„Framkvæmdin á að vera nokkuð augljós af löggjöfinni, fari svo að þingið ákveði að kalla saman Landsdóm," segir Ásmundur Helgason héraðsdómari, sem áður starfaði sem lögfræðingur á Alþingi. „Þingið þarf að kjósa sérstakan saksóknara, sem mun reka málið áfram. Þingið kýs líka nefnd þingmanna sem verður saksóknara til stuðnings. Þegar Landsdómur kemur síðan saman verður málið rekið með svipuðum hætti og hvert annað dómsmál."

Samkvæmt lögum um Landsdóm kemur það í hlut saksóknarans að útbúa ákæruskjal, sem byggt verður á ályktun þingsins. „Ákærður verður aðeins dæmdur fyrir þær sakir, sem tilgreindar eru í ályktun Alþingis," segir í lögunum. „Hins vegar er dómurinn ekki bundinn við refsikröfur saksóknara."

Nokkur umræða hefur orðið um það að hin ákærðu hafi ekki notið réttarstöðu sakbornings áður en ákæra er lögð fram. Ásmundur segir lögin um Landsdóm hins vegar ekki gera neina kröfu um það.

„Það fer af stað sjálfstæð rannsókn fyrir Landsdómi þar sem leiða á í ljós hvort þau sem eru ákærð eru sek. Það hefði vel verið hægt að ímynda sér þessa atburðarás þannig að einhver þingmaður hafi lagt fram þingsályktunartillögu um að fara af stað með ákæru án þess að nokkur rannsókn hafi farið fram."- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×