Innlent

Laun fyrir nefndarstörf hækkuð um 20% hjá Vestmannaeyjabæ

Elliði Vignisson.
Elliði Vignisson.
Ný bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkti á fyrsta fundi sínum að hækka laun fyrir setu í nefndum og ráðum bæjarins um 20 prósent. Ályktun þess efnis var samþykkt með atkvæðum allra fjögurra fulltrúa Sjálfstæðisflokksins auk tveggja fulltrúa Vestmannaeyjalistans. Einn fulltrúi Vestmannaeyjalistans, Jórunn Einarsdóttir, sat hjá.

Ekki náðist í Jórunni í gærkvöldi en á vef Eyjafrétta er haft eftir henni að hún hafi ekki haft forsendur til að meta þetta á fundinum.

„Við erum að færa nefndarlaun í Vestmannaeyjum nær því sem er hjá öðrum sveitarfélögum. Ennþá vantar þó talsvert mikið upp á að við náum því að fara í sömu greiðslu og önnur sveitarfélög," segir Elliði Vignisson bæjarstjóri um málið. Spurður hvaða sveitarfélög hann miði við segir Elliði: „Það eru þessi samanburðar-sveitarfélög sem eru lík okkur að stærð og gerð. Það var unnin úttekt á þessu á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga og eftir að hafa farið yfir þær samanburðartölur þá var bara ekki lengur verjandi annað en að færa sig nær því sem er annars staðar."

Elliði segir fjárhagsstöðu Vestmannaeyjabæjar góða. „Þessar aðgerðir sem önnur sveitarfélög standa í núna, með því að skera niður yfirvinnu og lækka laun æðstu embættismanna og pólitískra fulltrúa, áttu sér stað í Vestmannaeyjum 2004 og 2005 þegar við vorum illa sett. Það varð til þess að laun pólitískra fulltrúa voru orðin umtalsvert lægri hér en annars staðar," segir Elliði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×