Forstöðumaður Götusmiðjunnar íhugar málaferli gegn Barnaverndarstofu sem lokaði heimilinu í kvöld og sendi átta ungmenni heim. Forstöðumaðurinn, Guðmundur Týr Þórarinsson gjarnan kallaður Mummi, segir börnin hafa verið fjarlægð með ólögmætum hætti úr meðferð Götusmiðjunnar. Hann vísar ásökunum um hótanir um líkamsmeiðingar á bug.
Götusmiðjan er sérhæft meðferðarheimili fyrir ungt fólk á aldrinum 15-20 ára í Brúarholti í Grímsnes- og Grafningshreppi. Heimilinu var lokað í kvöld. Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, sagði í samtali við fréttastofu fyrr í kvöld að málið hafi átt sér langan aðdraganda. Stjórnunarvandi hafi verið farinn að bitna á meðferðinni og skaða ungmennin sem dvöldu í Götusmiðjunni. Kornið sem hafi fyllt mælinn hafi verið ákveðin samskipti Mumma við ungmennin sem hafi farið yfir öll velsæmismörk. Á vef Ríkisútvarpsins var fullyrt að Mummi hefði hótað skjólstæðingum á heimilinu limlestingum.
„Tildrögin voru þau að sögn forstjóra Barnaverndarstofu að Guðmundur Týr átti að hafa hótað ungmennunum líkamsmeiðingum gerðust þau uppvís að trúnaðarbresti gagnvart honum, varðandi uppsögn tiltekins starfsmanns Götusmiðjunnar. Þeim ásökunum er alfarið vísað á bug sem ósönnum og ósönnuðum, enda vart um annað að ræða en dylgjur og aðdróttanir," segir í yfirlýsingu sem lögfræðingur Mumma sendi fréttastofu í kvöld.
Þar segir jafnframt: „Guðmundur Týr var hvorki upplýstur um fyrirætlanir Barnaverndarstofu áður en hafist var handa né heldur gefinn kostur á að tjá sig um þær."