Innlent

Davíð hringdi í Jóhönnu en svaraði ekki hvort hann hyggist hætta

Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon.
Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon. Vísir/Sigurjón
Frumvarp um breytingar á skipulagi Seðlabankans var kynnt af Jóhönnu Sigurðardóttur á ríkisstjórnarfundi í dag og afgreitt til þingflokka stjórnarflokkanna og Framsóknarflokksins. Á blaðamannafundi í Þjóðmenningarhúsinu kom fram að vonir standi til þess að frumvarpið verði lagt fyrir á Alþingi í þessari viku. Davíð Oddsson hefur ekki svarað Jóhönnu því af eða á hvort hann ætli að fara frá.

Í máli Jóhönnu kom fram að í frumvarpinu felst að ráðinn verði einn faglegur seðlabankastjóri í stað þeirra þriggja sem nú eru í bankanum. Þá kom einnig fram að í frumvarpinu sé gerð grein fyrir peningamálastefnu bankans.

Jóhanna sendi bankastjórunum bréf í gær þar sem óskað var eftir því að þeir létu af störfum. Á fundinum í dag kom fram að hún hafi fengið símtal frá Davíð Oddssyni formanni bankastjórnar í morgun.

Jóhanna sagðist ekki vilja fara ítarlega út í samtalið en hún sagði þó að Davíð hafi ekki svarað því af eða á hvort hann ætli sér að verða við beiðninni um uppsögn. Davíð er staddur erlendis og sagðist Jóhanna hafa merkt það á orðum hans að hann þyrfti að taka sér tíma til umhugsunar.

Jóhanna greindi einnig frá því að ný ríkisstjórn ætli sér að eiga mjög náið samráð með hagsmunaaðilum í þjóðfélaginu auk þess sem þau Steingrímur ætli sér að halda vikulega blaðamannafundi héðan í frá.

Hún sagði mikið verk fyrir höndum og að 15 til 20 frumvörp þyrftu að komast í gegn á þessu stutta þingi sem framundan er. Vonast Jóhanna eftir góðu samstarfi við stjórnarandstöðuna í því efni.

Hún ítrekaði að engin ágreiningur væri innan ríkisstjórnarinnar um aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hér á landi.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×