Þeir Fernando Torres og Ryan Babel fara ekki með leikmannahópi Liverpool sem mætir Debrecen í Meistaradeild Evrópu annað kvöld.
Torres hefur átt við meiðsli að stríða að undanförnu og Babel meiddist í leik Liverpool gegn Manchester City um helgina.
Daniel Agger fór einnig meiddur af velli gegn City um helgina en er með í för til Ungverjalands.
„Við mátum það fyrst að hann yrði frá vegna meiðslanna í 2-3 vikur og síðan þá eru aðeins liðnir 12-13 dagar. Það þjónar því engum tilgangi að hafa hann með," sagði Rafa Benitez, stjóri Liverpool.
Liverpool mætir Everton í ensku úrvalsdeildinni um helgina og á Torres í kapphlaupi við tímann um að ná þeim leik.
„Það mun ráðast á næstu dögum hvort hann geti spilað gegn Everton en það er ekkert víst í þeim efnum eins og er," bætti Benitez við.